Í Árbæjarkirkju er guðsþjónusta kl. 11 alla sunnudaga árið um kring. Leitast er við að hafa fjölbreytt messuform til þess að mæta ólíkum þörfum sóknarbarna.

Við erum sveigjanleg og tilbúin að breyta til og reyna nýjungar en það sem er alveg fast árið um kring er að annan sunnudag hvers mánaðar er fjölskyldumessa. Þar er brúað bilið á milli sunnudagaskóla og hefðbundinnar guðsþjónustu messuformið einfalt en um leið er reynt að höfða til allra aldurshópa. Að öllu jöfnu er fyrsti og síðast sunnudagur með hefbundnu messuformi þar sem organisti og kirkjukór stendur vaktina og leiðir safnaðarsönginn. Þriðja sunnudag er gjarnan tónlist í öndvegi, ýmiskonar tónlist, klassísk, í léttari kantinum og frá Taizé svo eitthvað sé nefnt.  Léttmessur hafa einnig verið hluti guðsþjónuhalds og eru þær auglýstar sérstaklega.

Kirkjudegi safnaðarins er fagnað með Guðsþjónustu kl. 14  fyrsta sunnudag í aðventu og kaffisala Kvenfélagsins og skyndihappadrætti líknarsjóðsins er einnig árviss viðburður þann dag.  Á hátíðum eru hátíðarguðsþjónustur, aðfangadag kl. 18 og 23, jóladag kl. 14 og annan dag jóla kl. 14. Gamlársdag er messað kl. 17 og á nýju ári fagnað kl. 14 á nýársdag. Föstudaginn langa er guðsþjónusta kl. 11. Á páskamorgun er upprisunni fagnað kl. 8 með hátíðarguðsþjónustu og aftur kl. 11 með fjölskylduguðsþjónstu. Uppstigningardagur er haldinn hátíðlegur með messu kl. 14 og Sóroptimistar bjóða til veislu í safnaðarheimilinu á eftir.  Hvítasunnu er fagnað með guðsþjónustu kl. 11.

Guðsþjónustan á að vera griðarstaður þar sem þú getur komið ein/einn eða með stórfjölskyldunni allt eftir aðstæðum og líðan. Við viljum taka vel á móti fólki og mæta því þar sem það er statt á lífsgöngunni.
Þú ert hjartanlega velkomin kl. 11 á sunnudagamorgnum í guðsþjónustu eða að líta við í kirkjunni þinni á öðrum tíma ef það hentar þér betur.