BiblíanHér má sjá ritningarvers sem fermingarbörn geta valið sem sitt minnisvers fyrir fermingardaginn.  Að sjálfsögðu má velja einhver önnur ritningarvers úr Biblíunni. 

 

Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi. Sálm. 23:6

Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. I Kor. 13:7

Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu. Róm. 12:21

Þakkið Drottni því hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Sálm. 107:1

Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins. Orðskv. 4:23

Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. I Tím. 4:12

Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.   Jós. 1:9

Sá sem ástundar réttlæti og kærleika, öðlast líf, velgengni og heiður. Orðskv. 21:21

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sálm 51:12

Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp. Gal. 6:9

Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Orðskv. 22:1

Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.  I. Jóh.4:16

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm 37:5

En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.  I Kor.13:13

Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Sálm. 127:1

Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.  Sálm 145:9

Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.  Sálm. 91:11

Kenn mér að gera vilja þinn, því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sálm. 143:10

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sálm. 145:8

Guð fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein. Sálm. 103:3

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Matt. 5:7

Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.” Jesaja 41:13

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sálm. 121:5

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum. Sálm. 4:9

Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Matt. 7:7

Jesús segir: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.” Matt. 11:28

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.  Sálm. 121:2

Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann, og frelsar þá. Sálm. 34:8

Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum. Sálm. 145:17

Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sálm. 100:5

Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Matt. 5:8

Sælir eru friðflytjendur  því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Matt. 5:9

Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Matt 5:6

Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum Róm. 12:15

Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.  Jesaja 40:31

Leitið Drottins, meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jesaja 55:6

„Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.” Post. 16:31

„…en Guði er enginn hlutur um megn.” Lúk. 1:37

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Jóh. 3:16

Jesús segir: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. “ Matt. 7:12

Jesús segir:: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.” Lúk. 9:23

Jesús segir: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en týna eða glata sjálfum sér?“ Lúk. 9:25

Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11

Jesús segir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi.” Jóh. 11:25

Jesús segir: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” Jóh. 14:6

Jesús segir: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“ Jóh. 14:15

Jesús segir: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“  Jóh. 8:12

Jesús segir: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“  Matt. 28:20

Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Heb. 13:8

Við vitum að þeim sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. Róm. 8:28

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 1.Mós. 1:1

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29:11

Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. 1.Jóh. 1:9

Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sálm. 86:11

Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4:13

Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sálm. 119:105