Safnaðarheimili Árbæjarkirkju hefur löngum verið hjarta safnaðar- og félagstarfs í Árbæjarhverfi — vettvangur þar sem kynslóðir koma saman, deila trú, gleði, sorgum og daglegum verkefnum. Með stækkun safnaðarheimilis kirkjunnar er brugðist við auknum þörfum og gefin tækifæri til að efla starfsemina enn frekar, opna fyrir nýjar leiðir í þjónustu og styrkja tengslin milli fólks í hverfinu.

Vegna framkvæmdanna við stækkun safnaðarheimilisins þurfti að loka eldhúsi og sal og þrengja enn frekar að starfsfólkinu. Nú hefur nýtt og glæsilegt eldhús verið tekið í notkun ásamt endurbættu anddyri. Salurinn er óbreyttur. Ekkert af viðbyggingunni er komið í notkun, þar á meðal stækkun salarins og starfsmannahlutinn.

Til stendur að ganga frá lóðinni í sumar og halda síðan áfram vinnu við nýja byggingarhlutann eftir því sem fjárráð leyfa. Með því verður aftur hægt að nýta inngang að neðanverðu sem hefur verið lokaður síðan framkvæmdir hófust. Því verki lýkur vart fyrr en með haustinu og því brýnt að bíða ekki og bæta hið fyrsta aðkomuna að salnum innanhúss.

Lyfta milli hæða

Milli hæða í Árbæjarkirkju hefur aldrei verið lyfta, aðeins þröngur hringstigi sem er ekki á allra færi að nota. Eðlilega var ákveðið að setja lyftu í kirkjuna þegar húsnæðið yrði stækkað. Meðan lyftan er ekki komin er ekki hægt að nýta salinn og eldhúsið til fullnustu, hvort heldur er til félags- og safnaðarstarfs eða til dæmis fyrir erfidrykkju. Því er nauðsynlegt að koma lyftunni fyrir hið allra fyrsta. Á því hefur borið að aldraðir og hreyfihamlaðir treysti sér ekki til að fara í salinn fyrr en lyftan kemur. Af þessum ástæðum er ótvíræð nauðsyn að næsta skref endurbótanna í Árbæjarkirkju verði að að setja í hana lyftu.

Við biðjum um stuðning

Allt frá byrjun hefur ráðdeild einkennt starfið í Árbæjarkirkju og tekist að halda úti öflugu starfi án þess að stofna til skulda. Þegar ráðist er í brýnar framkvæmdir eins og núna verður ekki hjá því komist að fara út fyrir eigin sjóði og leita stuðnings einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja til þess að ljúka því uppbyggingarverki sem hófst árið 2024. Næsta verkefni í því er að kaupa lyftu og koma henni fyrir á sínum stað, halda síðan áfram við aðra hluta nýbyggingarinnar. Við heitum á ykkur að standa með Árbæjarkirkju, láta fé af hendi rakna og styðja þannig uppbyggingarstarfið

A: Hægt er að styðja við byggingu safnaðarheimilisins fjárhagslega með því að leggja fé inn á söfnunarreikning

0113 – 15 – 630348 kt. 420169-4429