Prédikun

Guðspjall: Mark: 9.14-29
Bæn
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi
Ánægjulegt er að koma hingað til Íslands frá Færeyjum og heimsækja Árbæjarkirkju og fá að taka þátt í messu hér með safnaðarfólki. Þessi fagra og merka kirkja er byggð á fallegum og hrífandi stað skammt frá Elliðaánum þar sem laxfiskur syndir og náttúran þrífst vel og dafnar.
Við erum til samans 21 Færeyingur á ferð sem segja má að vitji hér frænda og vina á Íslandi, og tökum þátt í 7. Hringborði norðurslóða, Arctic Circle Assembly, sem er haldið hér í Reykjavík. Yfirstandandi og yfirvofandi loftslags- og umhverfisbreytingar eru sérstaklega á dagskrá þessarar alþjóðlegu ráðstefnu, sem varpar ljósi á ábyrgð okkar manna á farnaði sköpunarverksins.
Vináttan er hlý og góð við íslensku kirkjuna. Til að mynda voru nær allir þjónandi prestar í Færeyjum á fræðsluferð með mér sem biskupi í maímánuði árið 2016. Þá heimsóttum við Hafnarfjarðarkirkju. Enn og aftur er það Færeyjavinurinn séra Gunnþór Ingason, er þar var lengi sóknarprestur, sem er okkur innan handar og vísar veginn.
Árið 2007 komst Þjóðkirkja Færeyja í færeyskar hendur og rauf þannig langvarandi stjórnartengsl sín við dönsku Þjóðkirkjuna og varð fullvalda, og sem biskup hennar markaði ég henni þá stefnu að glæða hina kristnu vitund og viðmið um ábyrð manna gagnvart sköpunarverki Guðs.
Hægt miðar að settu marki en þó fetað fram veginn rétta. Nokkrir færeyskir prestar hafa tekið grænu hugsunina og stefnumiðin til sín, og halda fyrsta sunnudag í septembermánuði í kirkjum sínum undir yfirskriftinni: ,,Sköpunarverkið, umbreyting og endursköpun – fædd til að lifa með ábyrgð’’.
Sóknarnefndirnar í Færeyjum vita vel um áskoranirnar sem felast í loftslagsbreytingunum og afleiðingum þeirra. Kirkjum er þar breytt, svo að þær taki mið af þessum umskiptum. Gætt verður að bættri einangrun þeirra og að þær nýti ,,hreina orku’’, raf-og vindorku, jarð- og sjávarhita.
Sem áfanga að því marki að gera kirkjuna græna og sjálfbæra taka fulltrúar færeysku Þjóðkirkjunnar nú þriðja árið í röð þátt í Hringborði Norðurslóða
hér í Reykjavík. Það varðar miklu að þekkja til, fræðast og fylgjast með framvindunni og hagnýta þekkinguna sem best, svo að á vegum kirkjunnar sé talað af færni og myndugleika og spámannlegri röddu inn í samtíðina.
Grænir dagar eru vel þekktir í Færeyjum. Fyrirtæki og stofnanir þar leggja áherslu á að starfsfólk þeirra þroski með sér vitund um þýðingu umhverfisins, heilsu og mataræðis. Heilsan hefur enda bæði áhrif á lífsgæði og faglega færni. Og það hefur þýðingu bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki að haga lífi og starfsemi meðvitað um þarfir tímans
Græni hugsunarhátturinn fer inn um kirkjugáttir og inn í Guðshúsin, enda er hann ekki nýtilkominn. Áhrif hans hafa borist frá nágrannalöndum og vísbendingar um hann koma fram í Biblíunni og kirkjusögunni. Hann sýnir sig líka á kunnuglegum slóðum og gerir vart við sig í sálmum, prédikunum og öllu lífsmynstri og lífsmótun okkar Færeyinga, um borð í bátum og skipum og í allri sjálfbjargarviðleitni okkar.
Í byrjun 1. Mósebókar Gamla Tesamentisins talar Guð bæði um sköpun og ábyrgð og felur og treystir okkur mönnum til að meðhöndla og gæta að sköpunarverkinu. Við erum ráðsmenn. Við eigum að annast sköpunina af skynsemi, svo að það sem Guð hefur gert vel og gott fái varðveitt gæði sín.
Jafnframt verðum við þess áskynja, að syndafallið hefur spillt mannlegri hugsun einnig á þessu sviði. Því verður hugur manns að lýsast upp, svo að augu hans fái greint tign Guðs og dýrð.
Í kristinni trúarhugsun er fjallað um endursköpun og vísað þar til hjálpræðisverka Jesú Krists og að við í skírninni og trúnni endursköpumst og séum kölluð til að lifa lífinu nýja með árvekni og ábyrgð.
Einmitt þessi tími kirkjuársins, sem enn stendur yfir, hentar vel fyrir græna sunnudaga í kirkjunni.
Það á við vorið, þegar sumars verður vart. Þá grær land og hagar grænka, og nýfædd lömbin hlaupa í spretti teig af teig, og fuglsungar vappa í móa og fjöru. Grænar guðsþjónustur eiga líka við að hausti, þar sem þökkin fyrir gróður lands og sjávarföng fær komið fram og sýnt sig.
Kirkjuárið hefur sýna helgiliti, og hver litur sína boðun. Hver litur þess hefur sínar birtingarmyndir og varpar ljósi á þær. Og á Þrenningarhátíð er kirkjuliturinn hvítur. Hann boðar helgi og hreinleika. Og prédikunartextinn er skírnar- og kristniboðsskipunin.
Á vissan hátt á þessi nálgun vel við hugsunina um hreint og ómengað umhverfi. Kristnin, – sem endurfædd Guðs börn – gefur gætur að lífríkinu og tekur ábyrgð á jörðunni.
Í skírninni erum við helguð og hreinsuð. Og sem hreinsuð og helguð grein erum við gróðursett á Kristi [sem er lífsins tré] Og sem slík eigum við að fræðast og komast til þekkingar á því hvað það er og þýðir að lifa lífinu sem verandi kristin. Við ættum að leggja aukna áherslu á það sem fylgja á og samsvara trúnni, taka ábyrgð og bera ávöxt trúarinnar.
Sunnudagana eftir Þrenningarhátíð er helgiliturinn grænn, og myndin sem hann dregur upp hefur sitt að segja og vitnar um, að greinin sem hreinsast og helgast í skírninni og grær við Krist fái náð og blessun til að vaxa, þrífast og að lokum að bera þroskaða ávexti.
Kristni og kirkja, við sem erum rík í Guði, berum saman ábyrgð á jörðunni. Og við eigum að gefa börnum okkar og afkomendum kost á því að lifa góðu lífi á ómengaðri og hreinni jörðu, þar sem land og haf renna saman í glampandi sólarskini.
Lífið auðgast þegar liturinn hvíti, – helgi og,,hreinleiki’’- vekur græna hugsun, svo að sköpunarverkinu gefist bestu kjörin til að þrífast, komast af og lifa, komandi kynslóðum til farsældar og gleði.
Með því fara vel með sköpunarverkið heiðrar hver maður skapara sinn, og jafnframt skapara himins og jarðar. Um handarverk hans er að ræða.
Guðspjallið um drenginn, sem var haldinn illum anda, vitnar um græðandi og frelsandi mátt Jesú Krists. Drengurinn var svo þjáður og illa haldinn, að hann froðufelldi og gnísti tönnum. Faðir hans, dapur og niðurdreginn, leitaði ásjár hjá Jesú líkt og fjöldi annarra.
Jesús hlýddi á frásögu föðurins og sagði við hann. ,,Færið hann til mín’’, og skrifað stendur svo uppörvandi. ,,Þeir færðu hann þá til Jesú.’’
Faðirinn bað Jesú um líkn og hjálp og hann varð sjálfur laus við vantrúnna. ,Já, undrið gerðist bæði hvað varðar föðurinn og soninn. Faðirinn hlaut bænasvar og Jesús leysti drenginn undan áþjáninni og tók í hönd hans og reisti hann upp.
Kristinni kirkju ber nú og verður að færa mannlíf og sköpunarverkið allt fram fyrir Jesú og Guðs endurleysandi mátt. Kirkja Krists á að vitna og starfa af myndugleika og í anda og sannleika og vera þannig virkt afl í samfélagi sínu, sem fjörgar og byggir upp mannlífið.
Við verðum sem kristin að hafa þann kjark að tala með spámannlegri röddu inn í samtíðina og ekki halda því fjarri sem er andlegt og áhrifaríkt, því að það er í anda Guðs sem umbreytandi kraftinn er að finna.
Við, sem höfum fengið hlutdeild í lífinu eilífa og lifum í kristinni trú jafnt hversdagslega og á hátíðum, höfum fengið það hlutverk að gefa lífinu sem bestan umbúnað og kjör til að fá lifað og dafnað. Við megum koma fram fyrir Jesú með öll okkar vandamál, aðstæður og áskoranir, líka þá ábyrgð sem varð okkar hlutverk, að vera ráðsmenn Guðs góðu sköpunar.
Reykjavík er nú um stundir umgjörð 7. Hringborðs Norðurslóða, merkrar ráðstefnu um umhverfismál með sérstöku tilliti til norðurheimskautssvæða, þar sem ummerki loftslagsbreytinganna eru hvað greinilegastar. Okkar hlutverk, núlifandi kynslóða, er að gefa komandi kynslóðum þar og annars staðar á jörðu, lífvænlegan og sjálfbæran lífsgrunn og lífsforsendur.
Hjá okkur Færeyingum er sjórinn forsendan og grunnurinn að tilverunni. Við verðum því að stuðla að því að hafið verði áfram hreint og sjálfbært líffræðilega.
Við skulum lifa, og standa að verkum í Guðs skapandi krafti. Við getum hagnýtt til þess máttinn í hjálpræðisverki Jesú Krists, lífskraft hans og endursköpun. Sem ráðsmenn eigum við að vera vakandi og láta boðandi og aðvarandi raddir heyrast svo að mannkynið stríði ekki einkum gegn sjálfu sér.
Það má ekki þvinga og kvelja jörðina og vinna hráefni úr henni án fyrirhyggju. Verði ekki gætt sem skyldi að fjölþættu lífi náttúrunnar er útlitið óneitanlega svart og ógnandi um framtíðina.
Við megum til með að vera ábyrg gagnvart jörðunni, landi, hafi og andrúmslofti, svo að umhverfið sé og verði ómengað og hreint og góð umgjörð um líf og lífskjör ófæddra kynslóða. Við verðum að geta stöðvað óskynsamlega og skaðlega lífshætti, sem ógna lífinu og þrengja að lífskjörum. Við megum ekki menga hafið, eitra loft með mengandi útblæstri og hagnýta jarðargæði án fyrirhyggju.
Við eigum sem kristin, hér á Íslandi og í Færeyjum og hvarvetna um jörðu að vera hvert öðru tákn um Guðs sköpun og gæsku. Við fáum lofað nafn Guðs, sem skapaði himin og jörð, og Jesú Krist, sem er Orð hans og lífsins raunsanni grunnur vegna endusköpunar sinnar og gefandi og sigrandi kærleika.
Við eigum að fara með hvert annað fram fyrir Jesú og verða upplýst Guðs Heilaga Anda í Jesú nafni og sjá þá fingraför Guðs í allri nátttúru og lífríki.
Guð blessi Árbæjarkirkju og varðveiti presta hennar og starfsfólk og öll sóknarbörn hennar. Styrki hann vináttu Færeyinga og Íslendinga og efli samstöðu þeirra til umhverfisverndar og við ræktun góðs og gæfuríks lífs, sem vitnar um Jesú Krist, áhrif hans og elsku.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda um aldir alda, Amen.
Meðtakið postulega blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag helags anda sé með yður öllum. Amen

Jógvan Fríðriksson, Föroyabiskupur

Þýð. Gunnþór Þ. Ingason