Tólf sporin -Andlegt ferðalag

TÓLF SPORA STARF Í ÁRBÆJARKIRKJU VETURINN 2019- 2020 

Tólf spora starfið hefst að nýju 25. september. Um er að ræða 30 vikna prógramm sem hefst að hausti 2019 og lýkur í maí 2020. Fyrst eru þrír kynningarfundir þar sem fólk hefur tækifæri til að kynna sér prógrammið. Það eru allir velkomnir á þessa opnu fundi og ekki þörf á að skrá sig fyrirfram. Fyrsti opni fundurinn verður miðvikudaginn 25. september kl. 19:00. Næsti opni fundurinn verður 2. október, þriðji opni fundurinn er 9. október en á fjórða fundi 16. október verður hópunum lokað og reiknað með að þau sem mæta þá ætli að vera með fram á vorið. (Best er að mæta á alla opnu fundina) Fundirnir verða síðan vikulega á miðvikudögum kl. 19:00-21:00. Nánari upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Árbæjarkirkju: arbaejarkirkja.is

Tólf spora vinna hentar öllum sem í einlægni vilja vinna með tilfinningar sínar í þeim tilgangi að öðlast betri líðan og meiri lífsfyllingu með því að leita styrks í kristinni trú. Ekki er gengið út frá að fólk eigi við nein skilgreind vandamál að stríða, fíkn eða slíkt, heldur er um að ræða tækifæri til sjálfsskoðunar og almenna uppbyggingu til að geta betur tekist á við áskoranir lífsins.

Á vikulegum fundum er farið skipulega í gegnum sporin og unnið í litlum, lokuðum hópum út frá bókinni: Tólf sporin-Andlegt ferðalag. Þátttakendur lesa efnið heima, svara spurningum sem ákveðið hefur verði fyrir hvern fund og koma svo og deila niðurstöðum sínum með hópnum. Fundirnir verða á efri hæð kirkjunnar á miðvikudögum kl. 19:00-21:00.

Starfið er þátttakendum að kostnaðarlausu, en nauðsynlegt er að kaupa vinnubókina. Hún er til sölu á kynningarfundunum en fæst líka í bókabúðum og í Kirkjuhúsinu.

Nánari upplýsingar um starfið gefur sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir í  síma  587-2405, netfang: petrina@arbaejarkirkja.is

Vinir í Bata er hópur kvenna og karla sem hafa tileinkað sér 12 sporin – Andlegt ferðalag. Hægt er að kynna sér samtökin á heimasíðu þeirra: www.viniribata.is